27 sep Vel heppnaður rýnifundur með áhugafólki um Vogabyggð 1
Rýnifundur Festis ehf. var haldin 26. september á hótel Nordica en tæplega 60 manns sóttu fundinn með meira en 40 manns sem tóku þátt í rýnihópavinnunni. Þátttakendur voru af öllum aldurshópum og jöfnu hlutfalli kynja með breiða nálgun í sínum áhuga allt frá kaupáhuga til áhuga á umhverfismálum og skipulagsmálum. Heimir Sigurðsson stjórnarformaður félagsins kynnti verkefnið fyrir gestum fundarins fyrir hönd Festis ehf. og fjallaði í stuttu máli um langan aðdraganda verkefnisins.
Fyrirkomulag fundarins var þannig að farið var í hverjum hóp yfir sex megin málefni sem umræður spunnust út frá. Í grófum dráttum voru málefnin eftirfarandi; visthæfni, lóð og inngangur, bílastæðamál, hverfið, íbúðarými og álit á tillögum arkitektanna frá hollensku arkitektastofunni Jvantspijker og dönsku arkitektastofunni Rakel Karls ApS.
Líflegar umræður spunnust á fundinum sem borðstjórar á vegum MMR stýrðu og í lok fundarins kynntu borðin helstu niðurstöður í stuttu máli en þar má nefna hugmyndir um strætóbáta, sameiginleg garðsvæði til að skapa virkt nærsamfélag, noktun endurvinnalegra efna og byggingu heilsusamlegra íbúða, deilihagkerfi fyrir farartæki, hve mikil þörf væri á bílastæðum og hvort þau ættu að vera í kjallara eða í bílastæðahúsum, sameiginleg hjólaverkstæði, mikilvægi þess að fólk hafi tilfinningu fyrir umhverfi sínu og sveigjanleika í íbúðarými og nýtingu svo eitthvað sé nefnt, en almennt fannst hópunum tillögurnar mjög aðlaðandi og heillandi.
Festir mun deila niðurstöðum rýnifundarins með fundargestum og þær munu einnig verða aðgengilega hér á vefsíðu Festis ehf.