Festir | Hugmyndavinnan fyrir Red Mountain Lagoon
Festir hefur það meginmarkmið að vinna að þróun uppbyggingu og endurbótum á fasteignum og lóðum fyrir skrifstofuhúsnæði, hótel eða íbúðarhúsnæði, ýmist með sölu eða rekstur í huga.
Fasteignaþróun, uppbygging, samstarf, skipulagsmál, byggðakjarnar, hótel, skrifstofuhúsnæði, íbúðarhúsnæði, uppbygging, Vogabyggð, Héðinsreitur,
16014
post-template-default,single,single-post,postid-16014,single-format-standard,ajax_fade,page_not_loaded,,qode_grid_1300,footer_responsive_adv,hide_top_bar_on_mobile_header,qode-content-sidebar-responsive,qode-theme-ver-10.0,wpb-js-composer js-comp-ver-6.1,vc_responsive
 

Hugmyndavinnan fyrir Red Mountain Lagoon

Hugmyndavinnan fyrir Red Mountain Lagoon

Morgunblaðið birti nú um páska fréttir af áformum Festis ehf. í tengslum við náttúruböð á Snæfellsnesi, nánar tiltekið í landi Eiðhúsa sem er skammt frá Vegamótum. Tveimur tillögum var skilað til félagsins, annarsvegar frá Gláma-Kím og hinsvegar frá Johannes Torpe Studios og hefur töluverð umfjöllun átt sér stað erlendis um fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu. Nýlega hlaut tillaga Johannes Torpe Studios einnig viðurkenningu í flokki “Retail and Leisure” hjá MIPM/The Architectural Review fyrir verkefni sem eru í bígerð.

En áður en Festir bauð til tillögugerðarinnar lagði félagið í mikla undirbúningsvinnu til að ramma inn hugmyndafræðina í kringum verkefnið. Magnús Guðmundsson vann frumdrög að hugmyndaramma en Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og annar eigandi Festis og Birta Ólafsdóttir, sem hefur háskólagráðu í frumkvöðlafræði og nýsköpun auk listasögu, leiddu hugmyndavinnunar til lykta.

TIllögur Gláma-Kím og Johannes Torpe Studios hvíla á þessari hugmyndavinnu með sterka tilvísun í náttúruleg kennileiti og sögu svæðisins, ss Bárðar Sögu Snæfellsáss, Snæfellsjökul og Rauðukúlu, en vinnuheiti verkefnisins „Red Mountain Lagoon“ er vísun í fjallið Rauðukúlu, sem er gömul eldstöð og áberandi kennileiti í fjallhryggnum norðan við svæðið. Rauðakúla skartar, eins og heitið gefur til kynna, djúprauðum lit og fullkomnu keiluformi sem sker sig ákveðið úr nágrenninu.  Nafnið vísar í eldinn sem kraumar í iðrum jarðar og gefur frá sér hitann og orkuna sem verkefnið hvílir á. Eldurinn er einnig tilvísun í andann og eilífa framvindu tilverunnar.

Grunnhugmynd náttúrubaðanna er að bjóða uppá einstaka upplifun, andlega slökun og vellíðan í óspilltri íslenskri náttúru með sköpun, náttúrukrafta og sjálfbærni að leiðarljósi.

Lagt er upp með að Red Mountain Lagoon verði með tíð og tíma kennileiti í byggingarlist á Ísland en það mun auka verðgildi þess bæði fyrir nærsamfélagið og eigendur þess til lengri tíma litið.

 

Virðing fyrir náttúru og nærsamfélagi

Á Snæfellsnesi verða áhrif náttúrunnar ljósari gestum en víða annarsstaðar. Það er auðvelt að finna til smæðar sinnar í stórbrotnu landslaginu og oft á tíðum dramatískum veðurham, en um leið styrkist sú upplifun að einstaklingurinn sé í rauninni hluti af miklu stærri heild og geti jafnvel haft jákvæð áhrif á þessa heild.

Settar voru nokkrar grunnlínur með karma sem megin inntak, þar sem áhersla er lögð á að öll umgengni um svæðið einkennist af virðingu fyrir umhverfinu; bæði náttúru og nærsamfélagi.  Stuðla skuli að jákvæðri uppbyggingu samfélagsins með því að draga fram einkenni þess tengd náttúru, sögu og menningu.

Verkefnið skuli þannig leiða til aukinna gæða fyrir nærsamfélagið, m.a. með því að tvinna saman hagsmuni ólíkra hópa þess og vinna með hinum ýmsu þjónustuaðilum á svæðinu. Tækifæri til þess eru m.a. í gegnum veitingarekstur og matreiðslu, matvælaframleiðslu, þjálfun og sérþekkingu í málefnum heilsugeirans ofl.  Með vandaðri ferðaþjónustu og útivistarmöguleikum er þannig hægt að styðja við helstu hugðarefni íbúa á svæðinu jafnt sem gesta. Landbúnaður og útgerð, sem hafa verið mikilvægustu atvinnuvegirnir á Snæfellsnesi frá upphafi, tvinnast því með jákvæðum hætti við þau tækifæri sem ferðaþjónusta á forsendum náttúru, menningar og heilsu, bjóða.

 

Innblástur sóttur í náttúru Snæfellsness

Staðsetning Red Mountain Lagoon í landi Eiðhúsa eða nágrenni er lykillinn að þeirri samvirkni sem hugmyndaramminn leitast eftir. Innblástur er sóttur úr umhverfinu og frá hinni ríku menningu Snæfellsness sem er í dag sívaxandi hluti aukinnar núvitundar á Íslandi. Snæfellsjökull verður þannig einskonar leiðarljós, sjáanlegur bæði frá höfuðborginni sem og Red Mountain Lagoon svæðinu, þeim sem vilja sækja orku í eina af sjö lífsstöðvum jarðarinnar. Þá eru Löngufjörur skammt undan sem einn eftirlætisstaður íslenskra hestamanna og náttúruunnenda og fjallgarðurinn til norðurs með Rauðukúlu og Ljósufjöll sem áberandi kennileiti.  Tillögur arkitektanna sækja andagift í þetta umhverfi með mismiklum hætti.

 

Nánar um þætti á lónssvæðinu sem tillöguramminn tekur til

Landssvæðið sem lónið er fyrirhugað á er um 3,5 km2. Landið liggur lágt, í eilitlum halla og því er útsýni til allra átta mjög gott með fjallgarðinn á aðra hönd og sjávarröndina á hina.

Veður geta verið válynd og vindasöm á Snæfellsnesi sem kunnugt er, sérstaklega að vetri til. Þá er oft mun kaldara á nesinu en t.d. á höfuðborgarsvæðinu með algengum norðanstrekking og einstaka fárviðri. Ferðalangar á svæðinu eru því líklegir til að fá reglulegar áminningar um að maðurinn lýtur lögmálum náttúrunnar og byggir hugmyndafræðin m.a. á því að nýta þá andlegu orku sem skapast í veðravítum á jákvæðan hátt.

Tillöguramminn leggur ríka áherslu á samhljóm mannvirkja og náttúru þar sem tekið er mið af útsýni, sólarátt og ráðandi vindum á svæðinu. Tillöguhöfundar eru að sama skapi hvattir til að leggja drög að djörfum arkitektúr sem dragi fram andstæður mannvirkis og náttúru, en leyfi samt sem áður landslagi og náttúru að flæða inn um innrými bygginga.

Gerð er krafa um að langdslagsarkitekt sé hluti af arkitektateyminu.

 

Listir og sköpun sem kjarni Red Mountain Lagoon

Hugmyndafræðin byggir einnig á því að listir og sköpun eigi sér rætur í kjarna mannsins og hafi græðandi áhrif á mannssálina. Nærumhverfið hefur mikil áhrif á vellíðan okkar sem einstaklinga og því er áhugavert að skapa aðstöðu fyrir gesti okkar þar sem þeir njóta lista og/eða eru sjálfir hvattir til listrænnar tjáningar.  Þannig sköpum við jákvæða orku innan náttúrubaðanna og stöðugt hugmyndaflæði sem aftur á móti skilar sér í vellíðan gesta okkar. Á seinni stigum verkefnisins er gert er ráð fyrir uppbyggingu listamanna íbúða og aðstöðu fyrir listsköpun og sýningar.

Þessu tengt er því gerð krafa um að listamaður sé hluti af arkitektateyminu sem endanlega verður valið til að vinna verkefnið.

 

Að lokum

Hér hefur verið reynt að drepa aðeins á tillögurammanum til að koma hugmyndafræðinni til skila sem Festir leggur til grundvallar verkefninu. Til að geta búið til áhugaverðan viðkomustað er nauðsynlegt að hugsa lengra en sem nemur útliti mannvirkja, þó að það skipti vissulega mjög miklu máli einnig.  Hér er það fyrst og fremst hugmyndin að baki verkefninu sem mun hafa úrslitaáhrif á velgengni staðarins til lengri tíma litið og þar eru tengingarnar við náttúruna, söguna og núið aðalatriði.

 

Staðurinn, Red Mountain Lagoon, er því miðpunktur alls þess sem hér hefur verið farið í gegnum. Upphaf og endir, komu- og kveðjustund, dvalarstaðurinn á meðan hið daglega amstur er skilið eftir og athyglin beinist að líkama og sál og síðan minningarnar sem fylgja gestinum út í sólina…eða rokið.

Mynd: Johannes Torpe Studios